Það eru stolnar stundir…

Ingveldur Einarsdóttir frá Selkoti sem orti eftirfarandi ljóð vann alla ævi sína sem vinnukona. Hún var heppin með húsbændur því hún vann m.a. hjá menntuðu og vel stæðu fólki í Reykjavík sem var henni gott og kunni að meta gáfur hennar og dugnað. En ljóðið lýsir kjörum hennar og ótal fleiri skáldkvenna nöturlega vel.

„Fylgja“ er fátækt heitir

flestu illu spáir.

„Ekki af því veitir

aura þó þú fáir.“

Frjálsar finnast mundir

fárra slíkra kvenna.

Það eru stolnar stundir

stingi ég niður penna.

Skyldan kallar, kallar:

„Kepptu við að prjóna;

árdagsstundir allar

áttu húsi að þjóna“

– flækir fjötra að mundum

flestra vinnukvenna. –

En á stolnum stundum

stakk ég niður penna.

Horft á sirkusinn fyrir innan – Um Útlínur liðins tíma eftir Virginiu Woolf

Breska skáldkonan Virginia Woolf (1882-1941) er einn fremsti rithöfundur 20. aldar, frumkvöðull módernisma og femínisma í skáldskap og baráttukona fyrir réttindum kvenna. Það var hún sem mælti þau fleygu orð að kona þyrfti að hafa sérherbergi til að geta verið rithöfundur. Á árunum 1939-40 ritaði hún endurminningar sínar, sem hún nefnir í textanum „útlínur“, en náði ekki að koma þeim í bók því hún batt enda á líf sitt sem kunnugt er. En það sem hún þó náði að skrifa um uppvöxt sinn er fallegur og áhrifaríkur texti um gleðistundir, atvik og áföll og fjölskyldulíf í samfélagi sem er þrúgað af eftirhreytum Viktoríutímans. Í fyrra kom bókin út í íslenskri þýðingu Soffíu Auðar Birgisdóttur, í flokki sígildra samtímabókmennta hjá Unu útgáfuhúsi og ber titilinn Útlínur liðins tíma

Gljúpt ílát

Bókin er ekki bara línuleg frásögn af lífshlaupi heldur inniheldur m.a. pælingar um hvernig eigi að fanga persónuleika í ævisögu er en á sama tíma og Virginina Woolf skráir  endurminningar sínar er hún einnig að skrifa ævisögu þekkts listmálara. Virginia segir að hún ætli ekki að dvelja um of við formið á þessum minningum. Áherslan er á manneskjuna og tilvist hennar, upplifun af atburðum og hughrifum, hljóð eins og skrjáf í laufi, ilm og form og sterkar tilfinningar sem skilja eftir sig spor (13), „moments of being“ (sem minnir á pælingar Roland Barthes um  „biographemes“ eða „ævifleyga“, þ.e. fleygur úr textaheild sem gengur inn í vitund lesanda, smýgur inn í kviku og fangar skynjunina augnablik). Þannig tengist spegill í forstofunni blygðun og sektarkennd og borðplata fyrir framan borðstofudyrnar tengist kynferðisofbeldi sem Virginia varð fyrir mjög ung og skömm sem hún upplifði í kjölfarið. Frásagnaraðferð Virginiu felst í að draga fram augnablik og ævifleyga, rýna í tengsl, áhrif, myndir og mannlýsingar, kannski eins og hún lýsir sjálf: „Í yfirfærðri merkingu gæti ég notað myndmál til að útskýra hvað ég meina. Ég er gljúpt ílát á floti í tilfinningum, ljósnæm plata berskjölduð fyrir ósýnilegum geislum… (124)

Ljón og api

Stór hluti endurminninganna snýst um foreldra Virginiu sem voru dæmigerð fyrir sína kynslóð. Meðan Juliu móður hennar naut við var lífið gleðiríkt og hún var sú sem hélt öllu saman – fögur, blíð og gáfuð. Systkinin voru alls sjö, faðir Virginiu var seinni maður Juliu og mun eldri en hún. Stórfjölskyldan bjó í Lundúnum og dvaldi á sumrin við sjávarsíðuna í St. Ives í Cornwall sem voru þeirra bestu stundir. En móðirin lést aðeins 49 ára gömul og þá var sælan á enda. Skömmu síðar lést systir Virginiu, nýgift og barnshafandi. Seinna efnilegur bróðir aðeins 26 ára. Sorg og harðstjórn föðurins urðu allsráðandi í lífi fjölskyldunnar næstu árin. Samband föður og dóttur var flókið, eins konar blanda ástar og haturs. Hann hvatti Virginu til lestrar og skrifa en kúgaði hana og systur hennar um leið með skapofsa og tiktúrum. Virginiu leið eins og hún væri taugaveiklaður api inni í búri með skapstyggu ljóni (96). Um leið og hann lést mörgum árum síðar fluttu systurnar í Bloomsbury-hverfið eins og frægt er og létu allar hömlur og kreddur fyrri kynslóða lönd og leið. Til varð rými fyrir ástir, frelsi og listræna sköpun og Virginia blómstraði í þessu umhverfi.

Feðraveldismaskínan

Áhugaverð er greining Virginiu á hinum hefðbundnu siðvenjum Viktoríutímans, þessu gamla sniðmáti og kröfum sem ríktu í samfélaginu. Faðir hennar ólst upp í íhaldssamri mótmælendafjölskyldu, menntamaður en hafði ekki náð þeim hæðum sem til stóð og ætlast var til, varð gramur og sjálfselskur og fór alveg út af sporinu við konumissinn. Bræður hennar fetuðu hlýðnir þá leið sem mörkuð var fyrir þá, fóru í heimavistarskóla, gengust inn á smásmugulegar hefðir eldri borgarastéttarinnar og unnu opinber störf. Systurnar nutu heimakennslu, áttu að fara í gönguferðir daglega og sá elsti dró þær með ruddalegri frekju í hvert drepleiðinlegt kvöldverðarboðið á fætur öðru. Þeir tilheyrðu öðrum heimi, þeir trúðu því að konur ættu að vera hreinlífar og karlar hreystimenni (155), þeir ræddu um pósthús og réttarsali (167) en þær áttu að vera snyrtilegar og viðeigandi klæddar og sýna þeim aðdáun og hlýðni. Hjá bræðrunum ríktu hefðirnar en hjá systrunum blómstaði vitsmunalíf. Þær teiknuðu, lásu og skrifuðu þær stundir sem þær áttu lausar en hlýddu annars leikreglum samfélagsins sem einkenndust af  bælingu og skyldurækni. Þeir höfðu til ráðstöfunar þúsund pund á ári en Virginia fimmtíu (157). Í bókinn er feðraveldi Viktoríutímans líkt við maskínu sem hrifsar tíu ára drengi til sín og hakkar þá í sig, og spýtir þeim út sem húsbændum, eiginmönnum og embættismönnum. Samkvæmislífið var sama maskínan, ungar stúlkur áttu enga möguleika í greipum hennar og Virginia lýsir þessu svo:

„Maskínan sem okkar uppreisnargjörnu líkömum var þröngvað inn í um aldamótin 1900 hélt okkur ekki aðeins í heljargreipum heldur beit stöðugt í okkur sínum beittu tönnum“ (155). 

Liðinn tími

Virgina veit ekki betur á ritunartíma Útlínanna en að hún eigi eftir að hafa nægt tóm til að ljúka við verkið. Á bls. 125 segir hún t.d. þegar hún er komin út fyrir efnið: „Ég set hér niður vegvísi til að merkja æð sem ég mun einhvern tíma reyna að nýta til fullnustu og sný mér aftur að yfirborðinu, það er að segja St. Ives…“ En frá unglingsaldri glímdi hún við geðröskun og sjálfsmorðshugleiðingar og bókin endar í miðjum klíðum. Hún er ókláruð en samt furðu heilleg.

Ekkert er hægt að setja út á þýðingu Soffíu Auðar, enda var bókin tilnefnd til Þýðingarverðlaunanna; málfar er blæbrigðaríkt og vandað og textinn rennur vel. Í bókinni eru afar fræðandi neðanmálsgreinar og eftirmáli eftir Soffíu Auði, m.a. um útgáfusögu handrits Virginu að Útlínunum, helstu æviatriði hennar og pælingar um enudrminningar og ævisagnagerð.

Það er svo margt í þessari bók sem vert er að hugsa um. Í henni eru í senn dregnar sjálfsævisögulegar útlínur glögga greinandans og baráttukonunnar sem Virginia var og ljósi varpað á líf og samfélag á liðnum tíma.

Það augnablik (moment of being) eða ævifleygur (biographem) sem fangaði skynjun mína einna helst við lesturinn er þessi tilfinning sem birtist í að vera eins konar útlagi eða utangarðs og geta þarafleiðandi verið greinandi: „Mér leið eins og sígauna eða barni sem stendur við tjaldopið og horfir á sirkusinn fyrir innan“  (157).

Hér má heyra áhugavert samtal Soffíu Auðar og Jórunnar Sigurðardóttur um bókina. 

Stórhættuleg bók?

Berglind Gunnarsdóttir hefur ort ljóð, þýtt ljóð, skrifað eina ævisögu og tvær skáldsögur. Önnur þeirra er Tímavillt frá 2007, um Áróru sem eftir traumatíska bernsku og meðvirkt uppeldi lifir kyrrlátu lífi innan um bækur. Einmanaleg tilvera hennar fer á hvolf þegar hún byrjar í ástarsambandi með miklu yngri manni (nafnlaus í sögunni). Sambandið er sjóðheitt, tilfinningarnar djúpar, ástriðurnar ólga en margt er mótdrægt, ekki síst áfengissýki hans og ótti hennar um að ástarsælan muni ekki endast.

Bókin skiptist í fimm kafla: Búðin, Bókasafnið, Ástin, Fallið og Vegurinn. Textinn minnir um margt á ljóð líkt og í fyrri skáldsögu Berglindar, Flugfiski (1992). Innan um eru tilvitnanir í gamlan skáldskap og bréf enda ástin tímalaus/tímavillt fyrirbæri sem setur allt á annan endann.

Tíminn er stef sem birtist af og til í sögunni. Endalok æsku og ungdóms, eilífðin, samtíminn, skammvinn ástin. „(Áróra) er líka rugluð í tímanum af því með honum lifir hún annan tíma en sinn eigin; tími hans verður líka tími hennar. Þannig stækkkar tímavídd hennar“ (54).

Og hún veltir fyrir sér tíðarandanum sem er líklega um 2007 þegar bókin kom út, bullandi uppgangur, djamm og velferð sem endaði illa eins og við vitum nú: „Hún fæddist inn í nútíma sem var að komast á legg og finnst hún núna lifa endalok hans. Það fór saman við hennar eigið líf sem var gengið henni úr greipum. Hvaða tími tók þá við?“

Að veslast upp í eigin skugga

Persónum sögunnar og þróun ástarsambandsins, risi þess og falli, er lýst af innsæi og á ljóðrænan, merkingarþrunginn hátt.

„Undanhald hans verður biturra eftir því sem lengra líður. Hún veit það, hann hefur sagt henni frá því hvernig birta glersins verður að veröld skuggamynda þar sem sérhvert ljósbrot smýgur langt inn í vitund hans, heggur hann snöggu, sársaukafullu lagi. Meðan hann var nógu ungur var það leikur einn og hann leikinn í að komast undan. Síðan harðnaði leikurinn og svik hans við sjálfan sig urðu svo margslungin að á endanum var hann farinn að veslast upp í eigin skugga (73).“

Stórhættuleg bók?

Gaman er að glugga í nokkra ritdóma um bókina frá því hún kom út,  í Fréttablaðinu sáluga, Mogganum og TMM. Viðtökurnar eru ólíkar. Tvær konur og einn karl skrifa um bókina.

Elísabet Brekkan segir í ritdómi í Fréttablaðinu 18. nóvember 2007:

„Þetta er kannski stórhættuleg bók sem getur ruglað allar miðaldra „spikk og span“ konur í ríminu þannig að þær fara að leita sér að ungum ástmönnum? Gæti virkað eins og dulítil uppskriftarbók fyrir konur á gráum dröktum.“

Hrund Ólafsdóttir fjallaði um bókina í Mbl, 22. nóvember 2007:

„Tilfinningar aðalpersónunnar sem Berglind lýsir eru djúpar, einlægar, fallegar, gleðilegar og sorglegar en umfram allt er þeim lýst mjög ljóðrænt og næstum alltaf er ókomin sorg yfirvofandi: ,,… eins og ekkert sé til nema heitir og yfirkomnir líkamar þeirra fléttaðir saman í þrá sem blandast kvöl yfir að verða aftur aðskildir. (59) Ástin er vonin og lífsneistinn sem lesandi vonar að bjargi aðalpersónunni frá depurðinni en heildarmyndin, sagan öll, með sálfræðilegri leit að skýringum veldur því að ekkert er eðlilegra en að svo verði ekki. Tímavillt er dapurleg, falleg saga höfundar sem óttast ekki að snerta lesendur.“

Vantar upp á gredduna

Í TMM 1. nóvember 2008 fjallar Ólafur Guðsteinn Kristjánsson um Tímavillt og aðra bók í sama ritdómi undir fyrirsögninni Ófullnægja hvunndagsins og finnst talsvert vanta upp á gredduna í báðum bókum.

„Flestir lifa sínu lífi án þess að eftir því sé tekið. Sé tekið eftir því er það út af því að viðkomandi hefur brugðið út af vananaum, líkt og í tilfelli Áróru. Það þýðir þó ekki að ekkert gerist bakvið tjöldin … Líkt og lesandi þessarar greinar hefur  tekið eftir er hún fremur þurr og litlaus, e.t.v. líkt og hvunndagurinn sjálfur og endurspeglar um margt bækurnar sjálfar. En þótt hvorug bókin gefi ballfróartilefni eru þær um margt áhugaverðar og varpa ljósi á hvað getur gerst í ófullnægju hvunndagsins ásamt því að veita okkur innsýn í hvunndag sem stendur okkur ef til vill of nærri til að við nemum hann almennilega. Þó kemst maður ekki hjá því að hugsa með sér að vel hefði mátt gera sér meiri mat úr efniviðnum, þá sérstaklega í Hliðarspori; sú saga býður upp á nokkuð óvænt plott sem hnýtir haganlega saman þræði bókarinnar. En þó að allt sé vel úr garði gert, bæði í henni og Tímavillt, vantar talsvert upp á gredduna, sem er auðvitað bagalegt í ljósi innihaldsins. Því þótt ófullnægju sé vissulega fyrir að fara í hvunndeginum er hann svo sannarlega graður.“

Austurstræti helgarnæturinnar

Undir lok sögunnar er rómantíkin búin og kaldur raunveruleikinn tekinn við. Áróra gengur um miðbæinn, „í risavöxnum draumi ölvunarinnar í Austurstræti helgarnæturinnar.“ (105) Hún gengur fram hjá porti þar sem konu var nauðgað, fram hjá götuhorni þar sem ungmenni var barið og skilið örkumla eftir í blóði sínu. Hún veltir fyrir sér hvatalífinu, upphafningu efnisins, trúlausum timanum. Hvernig fíknin étur upp góðvildina, hvernig þorstinn í ölvun og gleymsku er allsráðandi. En hjartahlýjan, sem er alls staðar ef að er gáð, lífsgleðin og kröftugt hljómfall tónlistar verða samt til þess að hún finnur sátt og von. Þegar þau fyrrum kærustuparið rekast saman í bænum halda þau orðalaust hvort í sína áttina. 

Sjá einnig á skáld.is 5.4.23

Bréf frá langömmu

Ættarmót Holtunga stendur fyrir dyrum um næstu helgi. Af því tilefni fórum við systur að grúska í gömlum bréfum og fundum m.a. þennan gullmola.

Holti, 11. mars 1962

Óttar minn elskulegur!

Ég hefi farið óskaplega illa að ráði mínu, að hafa aldrei sent þér orð á blaði í vetur. Ég er þó oft búin að skammast mín fyrir það. Ég þakka þér bréf með síðasta pósti, svo skemmtilegt og gott, og ég þakka ykkur Agga fyrir afmælisskeyti. Skilaðu því.

Blessað fólkið gerði þessi ósköp með mig á afmælisdaginn. Samferðafólk mitt frá gömlum árum sendi mér kveðjur, það lán hefur fylgt mér að hafa ætíð gott fólk í kringum mig. Sólin skein glatt á afmælisdaginn minn, þá veistu hvað dýrðlegt er í Holti. Dals- og Gunnarssstaðafólk kom, auðvitað Vilborg og Haukur og Arnþór. Hilla var ráðskona heima. Aðalsteinn Eiríksson og hans kona sendu mér stól, fínan og góðan, þvílíkt! Arnbjörg mín hafði veislukaffi, allir voru glaðir, en söngur varð ekki svo að hvinur yrði af!!

– Það er gott að allt gengur vel hjá þér, blessaður drengurinn, og gott að vita að bætast í kennarastéttina góðir drengir.

Ég og allir hér þakka kærlega fyrir jólakveðjur og allt gott. Myndina af stúdent Óttari hefi ég aldrei þakkað fyrir, geri það hér með, það er stórmyndarlegur maður, elskan.

Þú finnur nú hvernig amma þín er, bréf sem ég fékk snemma í desember hefi ég aldrei svarað. Mig dagaði uppi fyrir jól, Það var ekki fyrir að að ég vildi ekki. Svo langaði okkur að tala við ykkur á Akureyri milli jóla og nýárs, þá var veðrahamur og ómögulegt að fá samband eins og alltaf er héðan. Geiri vildi ekki senda þér þennan miða aftur. Hann sendi beint til þeirra suður í pöntun. Svo þú ert laus allra mála í því.
Frændur þínir voru einu sinni að bera við að þeir ættu að skrifa þér en það verður víst ekki í þetta sinn.

Það er gott að frétta af okkur. Skepnurnar hafa nóg, sjaldan beitt fé í vetur. Oddviti hugsandi yfir þeim vestur í firðinum. Sumir hafa víst lítið.

Ég enda þá þetta ómyndarbréf. Við hér biðjum kærlega að heilsa Agga, og óskum kennaraefnunum góðs afreks með vorinu. Allir biðja að heilsa þér auðvitað.

Vertu þá blessaður alla æfina og þakka þér elskulegheitin öll, elsku Óttar minn. Sólin blessuð vermi þig.

þín amma Ingiríður Árnadóttir

Eitt vetrarsvartholið enn

Ísak Harðarson er látinn. Síðasta smásagnasafnið hans, Hitinn á vaxmyndasafninu, fannst mér frábært verk. Ég fór honum til heiðurs að gramsa á veraldarvefnum eftir umfjöllun um bækur hans. Það rifjaðist upp að ég skrifaði sjálf örstutt um síðustu ljóðabók hans með titlinum furðulega, Ellefti snertur af yfirsýn þann 23. október 2018 á vef Kvennablaðsins sáluga sem er nú týnt og tröllum gefið. En ég fann greinina í iðrum tölvunnar og deili hér með, ég hafði soldið fyrir því að hafa ljóðabrotin í ComicSans þegar greinin birtist. Takk Ísak fyrir skáldskapinn.

Ísak Harðarson (f. 1956) er eitt af þekktustu skáldum sinnar kynslóðar. Kraftmikil og myndræn ljóð  hans búa yfir mótþróa, kaldhæðni  og heitri trúarþörf. Fyrsta ljóðabók Ísaks, Þriggja orða nafn, kom út 1982. Ljóðabók hans, Rennur upp um nótt (2009), var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2011.

Ísak er ómyrkur í máli í nýrri ljóðabók sem hann nefnir Ellefti snertur af yfirsýn. Bókin er sú ellefta í röð ljóðabóka hans og titillinn tengist ljóðlínu um fjall sem hann verður að ganga á til að fá þó ekki nema snert af yfirsýn á hrun (heimsins) og rústir siðmenningar. Þótt lesandi sé í upphafi varaður við því að orð og slitur myndi ekki neina samfellu, drætti eða mynstur, er heildarsvipur á bókinni. Andúð á efnishyggju, græðgi og offors er ríkjandi og heimsendir er nær en maður hefði haldið.

Það er dómsdagsstemning hvert sem litið er. Allt er hrunið, kurlað í mask, engin hús, engin bók, engin merking en guð er nálægur þótt hann sé hvergi að sjá. Og lítill strákur steinhissa sem fæddist á Allraveraldarvegi er orðinn Grafarvogsbúi. Jörðin, Úfinkolla Sunnudóttir, er á hverfanda hveli og feigðin vofir yfir.

Allt er ögrandi við ljóðabók Ísaks: Orðaleikir, ádeila, textauppsetning, titill, mynd á bókarkápu og hið forljóta letur ComicSans sem ýfir viðkvæmar taugar allra sem telja sig til fagurkera. En glæsileg eru ljóðin:

Lokaljóð bókarinnar er ástarljóð til deildar 33A á Landspítalanum, fullt af ást, þakklæti og von.

Ljóðið er ódrepandi, Ellefti snertur af yfirsýn kemur okkur í gegnum eitt vetrarsvartholið enn.

„Ef ég ætti að segja frá öllum viðbjóðnum…“

Ferðasögur eru ævaforn og vinsæl bókmenntagrein, eldri en skáldsagan enda stundum nefnd formóðir bæði hennar og sjálfsævisögunnar sem bókmenntaforms.

Upphaf ferðasagna á Íslandi eins og þær eru jafnan skilgreindar má tímasetja á seinni hluta 12. aldar með stuttri leiðarlýsingu Nikulásar ábóta og ferðabók Gizurar Hallssonar en hún hefur því miður týnst. Engar íslenskar ferðasögur hafa varðveist heilar frá 15. og 16. öld en til eru glefsur úr reisubók Björns Jórsalafara og snubbóttar minnisgreinar Gizurar biskups Einarssonar um ferðalög sín. Á sautjándu öld voru ritaðar fjórar ferðasögur sem varðveist hafa en vitað er um amk fimm texta til viðbótar sem nefndir eru í öðrum heimildum en hafa glatast. Ritun fræðilegra ferðabóka hófst síðan í kjölfar upplýsingarinnar á átjándu öld og þá voru líka skrifaðar nokkrar ferðasögur sem greina frá utanferðum einstaklinga og halda nafni þeirra á lofti. Á nítjándu öld er fjöldi ferðasagna orðinn gríðarlegur og hefur vaxið ört síðan. Ekki er mér kunnugt um ferðasögu eftir konu fyrir miðja nítjándu öld (sjá nánar í MA-ritgerð um íslenskar ferðasögur hér).

EIns og gefur að skilja voru það einkum karlar sem skrifuðu ferðasögur í gegnum aldirnar, þ.e. karlar sem höfðu fjárráð og ferða- og athafnafrelsi öndvert við konur.

En það eru til ferðasögur eftir konur, fjölbreyttar að gerð og efni en eiga það margar sameiginlegt að höfundur brýst undan hefðbundnu kynhlutverki samtíma síns. Þá er þess að vænta að konur sem stíga þetta skref í lífinu hafi annað sjónarhorn á hlutina en ríkir karlar en þó er ekki auðvelt að komast undan forréttindum sínum eins og glöggt má sjá í tilviki Idu Pfeiffer sem kom til Íslands sumarið 1845 og ritaði ferðasögu þar um. Íslandsferð Idu Pfeiffer 1845 er brot úr stærra verki um ferðalög Idu um Norðurlönd og hefur nú loksins verið þýdd og útgefin hjá bókaforlaginu Uglu. Guðmundur J. Guðmundsson þýddi og ritaði fróðlegan inngang. 

Ida (1797-1858) var frá Austurríki, kunnur landkönnuður og ferðasagnahöfundur og ein víðförlasta kona sinnar samtíðar. Hún lagðist í ferðalög eftir að hún varð ekkja og átti tvo uppkomna syni. Hún fór í tvær heimsreisur sem stóðu árum saman og fór m.a. til Asíu, Ameríku og Afríku. Fyrsta ferðabók hennar varð metsölubók en höfundar var ekki getið eins og æði oft var raunin þegar um konu var að ræða (10). Alls skrifaði hún fimm ferðabækur og hagnaðinn af bóksölunni notaði hún til að fjármagna reisur sínar, m.a. ferðina til Íslands. 

Ida var forvitin og áhugasöm um þjóðhætti í þeim löndum sem hún heimsótti og lýsti öllu skilmerkilega frá sínum bæjardyrum.  Hún var með myndavél í fórum sínum sem var óvenjulegt á þessum tíma. Ida hafði miklar væntingar til Íslandsfararinnar en óhætt er að segja að hún hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum. Þótt náttúran hafi verið heillandi komu landsmenn henni fyrir sjónir sem sóðalegir, latir og drykkfelldir. Hún virðist ekki hafa nokkurn skilning eða samúð með fátækt og umkomuleysi kúgaðrar nýlenduþjóðar. Ekki skildi hún nema stök orð í tungumálinu þrátt fyrir rómaða tungumálahæfileika og ekki gekk henni heldur vel að tala dönsku eða ensku við yfirstéttina sem hún vildi helst hafa samskipti við. Oft talar hún um ógeðsleg híbýlin þar sem hún gat ekki hugsað sér að gista heldur kaus frekar að sofa á hörðum kirkjubekk. 

Íslendingar eru mestu erkisóðar, bókstaflega viðbjóðslegir. Tökum sem dæmi tólf ára stúlku sem færði mér rjóma og vatn. Að mér ásjáandi sleikti hún með tungunni rjómann af tappanum úr rjómaflöskunni og ætlaði síðan að setja hann aftur á flöskuna. Stundum sat hún hjá mér í svo sem eins og hálftíma og þá kom fyrir að óværan sem þreifst í hárinu á henni gerðist full aðgangshörð. Þá þreifaði hún um höfuðið þangað til hún náði lúsinni, horfði á hana svipbrigðalaus og henti henni svo lifandi á jörðina. Skárra er að gera eins og Grænlendingar, þeir éta lýsnar og þá er að minnsta kosti engin hætta á að þær komist yfir á aðra. Yfirhöfuð hafa Íslendingar ekki nokkra tilfinningu eða skilning á almennu velsæmi. Ef ég ætti að segja frá öllum viðbjóðnum sem ég varð vitni að myndi það fylla margar blaðsíður (140).

Bók Idu fékk ekki góðar viðtökur hér á landi enda vandaði höfundur þjóðinni ekki kveðjurnar þótt náttúran væri vissulega heillandi og stórbrotin. Hnjóðuðu nokkrir karlar í hana sem frá er greint í formálanum. Í bókarlok segir Ida frá því sem henni finnst jákvætt í fari Íslendinga en það er fyrst og fremst heiðarleiki því engu var stolið af henni á ferðalaginu; langflestir eru læsir og skrifandi og í hverjum minnsta moldarkofa var alltaf bókargrey að finna. 

Ida fór víða um Suðurland, m.a. til Þingvalla og í Surtshelli, að Geysi og Heklu. Hún segir frá því að hún hafi staðið á Heklutindi og er þá líklegast fyrst kvenna til þess. Hún er fyrsta erlenda konan sem hingað kemur ein síns liðs. Hvað sem segja má um miskunnarlaust álit Idu á eymd og volæði íslensku þjóðarinnar var hún óneitanlega frumkvöðull og hetja, með ríka ferða- og ævintýraþrá og lét ekkert stöðva sig í að láta drauma sína rætast. Bókin er í senn heimild um horfinn tíma og merka konu og að auki stórskemmtileg aflestrar.

Sjá ennfremur: Ida Pfeiffer á Íslandi eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur og Ég heyrði það í holum rómi samviskunnar…eftir Kristínu I. Valdemarsdóttur og Þetta er ei annað en eins manns sjóferðaskrif, annáll íslenskra reisubóka til 1835 eftir Steinunni Ingu Óttarsdóttur

Vesen hinna ríku

Fyrir mér eru fjölskyldur svo áhugaverðar, þetta samansafn af fólki sem eyðir tíma saman eingöngu vegna þess að um æðar þess rennur sama blóð. Það er svo heillandi, ef maður hugsar út í það, hvað bindur einstaklinga saman og hversu langt sumir eru tilbúnir að ganga, bara fyrir það eitt… (307).

Í Englum alheimsins eftir Einar Má segir e- s staðar að ættartré séu einu trén sem vaxi á Íslandi og margt til í því. Í nýrri skáldsögu Evu Bjargar Ægisdóttur, Þú sérð mig ekki, segir frá dramatísku ættar- eða niðjamóti sem haldið er á Snæfellsnesi í nóvember 2017. Snæbergs-ættin frá Akranesi hefur hagnast gríðarlega á sjávarútvegi og greiðir sjálfri sér arð sem eykst með hverju ári. Slektið hefur leigt heilt hótel fyrir viðburðinn enda vellríkt fólk og landsfrægt á ferð og ætlar aldeilis að styrkja trosnuð fjölskylduböndin. Ættingjarnir þekkjast misvel eins og gengur í stórfjölskyldum, dagskrá ættarmótsins er mátulega stíf, glæsilegar veitingar og taumlaus drykkja og auðvitað fer allt úr böndunum.

Fjölskylda mín er ekki fullkomin. Við höfum aldrei þóst vera það. Hvernig aðrir sjá okkur er ekki okkur að kenna. Fólk gefur sér að það að eiga peninga og fallegar eignir sé á einhvern hátt eftirsóknarvert. Fyrir mér hefur það aldrei verið þannig. Hvað mig varðar hefur þetta verið byrði, frekar en nokkuð annað (368).

Ein persóna stígur fram í sviðsljósið í einu; ættingjar, makar, hótelstarfsfólk, lögreglan; og smátt og smátt skýrist myndin af fjölskyldunni og ýmsum óuppgerðum málum hjá þessu fína og léttsnobbaða fólki. Og svo er framið morð. En lesandinn veit ekki hvaða hótelgestur var myrtur fyrr en langt er liðið á þessa efnismiklu sögu. Það er skemmtilegt trix. Hver kafli endar þannig að lesandinn vill vita meira, hver persóna á sína sögu, hefur sinn djöful að draga en öðlast samúð og skilning lesanda þegar brotin raðast saman.

Það er ekki alltaf gaman að vera ríkur og frægur. Áhrifamest fundust mér í sögunni angist og krísa unglingsstúlkunnar Leu. Hún fékk 200.000 króna YSL-veski í afmælisgjöf sem gerði allt vitlaust á samfélagsmiðlum. Í leit að ást og viðurkenningu sendir hún myndir af sér úr símanum til einhvers sem hún þekkir ekki neitt. Og hún þarf að þola gláp og káf frænda síns.

Saga Tryggva, eiginmanns Petru Snæberg, móður Leu, er dramatísk og áhugaverð. Hann passar illa inn hjá fína fólkinu þar sem hann er frekar lúðalegur og hefur allt aðra sýn á lífið, hefur unnið hörðum höndum fyrir sínu.

Sævar, þorpslöggan, er með gott jarðsamband, hann hefur áður birst í bókum Evu Bjargar og í lok þessarar bókar stefnir í að hann kynnist lögreglukonunni Elmu sem er í rannsóknarteymi með honum í fyrri bókum. Svo það er gott í vændum.

Það hefði alveg mátt vinna betur með titil sögunnar og bókarkápuna. Eva Björg (f. 1988) er verðlaunahöfundur, fékk Svartfuglinn 2018, íslensku hljóðbókaverðlaunin 2020 og bresk glæpasagnaverðlaun fyrir þýðingu á Marrinu í stiganum 2021. Útgáfuréttur á bókum hennar hefur verið seldur m.a. til Þýskalands en þar hafa landsmenn mikinn áhuga á íslenskum bókmenntum.

Þú sérð mig ekki er fimmta bók Evu Bjargar. Hún hefur gott auga fyrir persónusköpun, byggingu sögu og næmt innsæi í þjóðarsálina sem skila sér í prýðilegri spennusögu – þótt morðið sé auðvitað klúður eins og oft vill verða.

Hamingjusöm börn

Í viðtali við Stundina árið 2018 lét Guðrún Helgadóttir rithöfundur þessi vísdómsorð falla um börn og barnauppeldi:

Varðandi barnauppeldi sagðist Guðrún hafa eitt ráð til fólks og það hafi hún kennt sínum börnum og barnabörnum „Það er að vera góð við þau. Ég kann enga uppeldisaðferð betri. Það getur verið dálítill vandi á köflum en fyrst af öllu verður barn að finna að það er elskað. Það skiptir bara akkúrat öllu máli,“ sagði Guðrún og bætti við að ein leið til að vera góð við börn sé að lesa fyrir þau. „Ég er sannfærð um það að barn verði ekki hamingjusamara í annan tíma en þegar það situr á volgu læri mömmu og pabba, ömmu, afa eða systkina, hlustar á sögu og skoðar kannski í leiðinni myndirnar. Það eru virkilega sælustundir fyrir alla,“ sagði Guðrún.

Þá sagðist hún vonast til þess að bækur hennar hafi og muni áfram hjálpa börnum við að opna augun og sjá lífið í kringum sig. „Við fullorðna fólkið eigum að kenna börnum að horfa á blómin, fjöllin, landið. Það gefur mikla hamingju að læra það. Öll fegurð gefur manni hamingju. Það þarf líka að opna huga þeirra fyrir umhverfinu, að kenna þeim til dæmis að hirða um hvernig félaganum líður. Þeir Jón Oddur og Jón Bjarni komust að því einhvers staðar í bókinni að það borgaði sig að vera góður. Ef börn eru opin fyrir lífinu, landinu, tungumálinu, þá held ég að þau verði afskaplega hamingjusöm.“

Siðbót og saggaþefur

Skáldsagan Byltingarbörn gerist á Íslandi um siðaskiptin og byggir á sögulegum heimildum eins og Bjöms Th. er von og vísa. Ögmundur biskup situr i Skálholti, háaldraður, farinn að heilsu og blindur. Undir hans vemdarvæng eru m.a. Gizur Einarsson biskupsefni, meistari Oddur Gottskálksson, þýðandi Nýja testamentisins, og systir hans, Guðrún biskupsdóttir frá Hólum. Þeir Gizur og Oddur hafa heillast af lúterskum sið sem Danakóngur hefur fyrirskipað og vinna að framgangi hans í leyni.

Flestar persónur sögunnar eiga sér stoð i raunveruleika fyrri tíðar. Myndin af meistara Oddi er skýr og nýstárleg, efasemdir hans um trúna og afleiðingar trúboðsins eru sannfærandi en hann er alltofsnemma úr sögunni. Gizur biskup efast ekki um að hann sé að gera rétt; að boða hið hreina orð án reykelsis, skúrgoða, ave og credo, en barátta hans skilar honum aðeins óhamingju enda spuming hversu góöur málstaðurinn er. Guðrún Gottskálksdóttir er sömuleiðis harmræn: stolt kona sem fórnar ástinni og hamingjunni til að friðþægja fyrir syndir sínar.

Ýmsar brotalamir eru þó í persónusköpuninni, við sumar aukapersónur er mikið nostrað (t.d. Þorkel úr Selvogi) meðan aðalpersónur standa í skugganum. Undarlegur er hinn sannsögulegi síra Eysteinn Þórðarson staöarráðsmaður sem bamar Guðrúnu, unnustu Gizurar. Framan af er Eysteinn skrípalegur með rauðan kýl sem á að undirstrika karlmennsku hans, svo gerist hann vígamaður, elskhugi og loks fómarlamb grimmdarlegs ofbeldis. Þegar Guðrún stendur upp frá samförum þeirra Eysteins segir: „Volg og ókennileg kvoða rann niður um innanverð lærin…“ (94). Klisjulegt orðalag og spyrja má hvers vegna þetta er henni svo framandi þar sem hún hefur áður sængað hjá Gizuri. Þá kemur fram sú fráleita og karllæga hugmynd að kona sé ekki heil, frjáls og sjálfri sér ráðandi fyrr en hún hefur kennt karlmanns (67).

Sjómarhomið er ýmist hjá Eysteini, Oddi eða Guðrúnu en lengst af er Gizur í sviðsljósinu. Oft er erfitt að henda reiður á brotakenndum söguþræði og illskiljanlegt er t.d. að Guðrún skuli þýðast Eystein eins og honum er lýst og að meinlætamaðurinn Gizur láti undan ásókn hofróðunnar Katrínar. Mikið er um vel gerð, löng og leikræn samtöl og þar lifnar sagan, persónumar stíga fram á svið og mæla á gullaldaríslensku Björns.

Ástin á sagnfræðinni á það til að skyggja á skáldskapinn í sögunni, t.d. þegar sögumaður talar um hversu skemmtilegar heimildir minnisgreinar Gizurar frá ferðalögum hans erlendis séu (137-8). Á sama stað má lesa orð sem e.t.v. hafa verið leiðarhnoða Björns sjálfs á rithöfundarferlinum: að lesa rétt úr því smáa, í ljósi þess stærra… (138). Það gerir hann t.d. í frásögn af því sem fólk leggur á sig til að komast að skríni Þorláks helga í Skálholti og varpar skýru ljósi á að siðaskiptin tengjast valdagræðgi og offorsi andlegra og veraldlegra ráðamanna fyrst og fremst en hafa minnst með sannfæringu almúgamanna að gera.

Í Byltingarbörnum er gefin raunsæisleg samfélagsmynd sextándu aldar. Á biskupssetrinu vaða menn forina í dimmum bæjargöngunum með saggaþef í nösum. Lýst er áhrifum siðbótarinnar á lærða og leika um leið og örlaga- og ástarsaga raunverulegs fólks er rakin. Efnið er erfitt viðureignar, sagan brokkgeng og langt frá því að vera með því besta frá hendi höfundar. Björn heldur sig á fornum slóðum og er fyrir löngu orðinn ráðsettur yfirmaður í sögulegu skáldsagnadeidinni. En hann er enginn byltingarbjörn. Og bókarkápan er hörmung.

Birt í DV 19.11.2000, hér örlitið breytt

Sætkartöflusúpa Heiðrúnar

Ég elska heitar og heimagerðar súpur. Fékk þessa fínu súpu hjá Heiðrúnu minni á Þórshöfn í sumar. Prófaði að elda hana hér í borginni en átti ekki alveg allt sem átti að vera en kona bjargar sér og nennir ekki útí búð eftir e-u smáræði. Súpan endaði svona:

1-2 sætar kartöflur, 1 l vatn, 1-2 laukar, 3-4 hvítlauksrif, 1 rauð paprika og/eða hálft epli, 1 msk grænmetiskraftur, salt og pipar, safi úr sítrónu eða límónu, duglega cummin, chiliduft og smá kanill

Sætu er flysjaðar, brytjaðar og soðnar í vatni þar til þær eru mjúkar. Vatninu hellt af. Hitt grænmetið steikt á pönnu í kryddinu. Allt sett saman og 1 l af vatni bætt í. Malla bara nógu lengi og mauka síðan með töfrasprota – það geri ég annars aldrei við súpur en þessi er góð svona mjúk og kremuð. Bæta svo við rjóma/hafrarjóma. Skreyta með steinselju og rjómataumi ef vill. Gott að hafa kaldhefað brauð með, það fékk ég hjá frænku! Brauðið á líka rætur til Þórshafnar, sjá hér söguna af því.